Lesa meiraMamma "/> Skip to content

Mamma

Ég fylgdi tæplega áttræðri móður minni til öldrunarlæknis á dögunum. Ástæða heimsóknarinnar var sem sagt öldrun. Tíminn hefur ákveðna fordóma gagnvart fullorðnu fólki hann nennir ekki að vinna með því þegar það hefur lokið ákveðnum skyldum við samfélagið. Mamma er búin að ala upp hvorki meira né minna en sex börn sem hafa ávaxtað sig um fjórtán barnabörn og tvö barnabarnabörn svo nú situr hún uppi með ónýtar mjaðmir og gatslitið bak. Hún segir besta verkjalyfið við þessum kvillum vera að sjá afkomendur sína lifa, dafna og elska, það gefur ellinni víst ríkan tilgang. Þegar maður fer til svona sérfræðings í öldrunarlækningum sem mér finnst að vísu mjög fyndið orð af því að síðast þegar ég gáði þá var ekki búið að finna neina lækningu við ellinni er boðið upp á próf sem metur minni og vitræna getu.

Ég fékk að vera viðstödd þegar mamma þreytti þetta próf, að vísu hafði ég ekki miklar áhyggjur af útkomunni vegna þess að mamma er svona hvíslari í leikriti lífs míns. Hún hringir t.d. mjög oft til að minna mig á að nú fari útsölum bráðum að ljúka í hinum og þessum búðum ef ég skyldi ætla að kaupa afmælisgjafir handa hinum og þessum í fjölskyldunni sem hún veit að ég man alls ekki eftir að eigi afmæli. Hún hringir og segir mér frá umræðum dagsins á alþingi og dregur saman niðurstöður helstu frumvarpa sem hafi verið lögð fram allt frá rammaáætlunum um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til afnáms ákvæðis í hegningarlögum sem bannar guðlast, þessu fylgir svo gjarnan einkunnargjöf fyrir framsetningu og málfar ræðumanna sem og upplýsingar um hversu margir hafi setið í fundarsal alþingis. Mamma er líka búin að kortleggja öll bílastæði á Akureyri og þegar ég er erinda með henni reynir hún að beina mér að heppilegum stæðum þar sem auðvelt er að leggja bílnum af því að hún heldur því fram að ég hafi sömu rýmisgreind og pabbi þegar kemur að því að meta fjarlægðir í umhverfinu. Í ljósi þessara ofantalinna atriða hafði ég engar áhyggjur þegar læknirinn lagði minnisprófið fyrir mitt móðurlega upphaf, ég lygndi aftur augunum og beið þess að hún myndi dúxa fyrst allra eldriborgara á 21.öld.

Prófið hófst með því að læknirinn sagði þrjú orð og bað mömmu að endurtaka þau sem og hún gerði með miklum bravör, þá tóku við ýmis skrifleg verkefni og að þeim loknum átti mamma að rifja aftur upp orðin þrjú sem nefnd voru í upphafi, það gerði hún eins og að drekka vatn um leið þornaði ég sjálf upp í munninum. Þó ég hefði þurft að skríða allan Laugaveginn nakin í hvítum sportsokkum og svörtum Eccosandölum með frönskum rennilás þá hefði ég ekki munað nema eitt af þessum þremur orðum. Ég fann hvernig ég kólnaði að innan og það sem eftir var prófsins nam ég bara í fjarska t.d. þegar læknirinn spurði mömmu hvað forsætisráðherra Íslands héti og mamma lét sér ekki bara nægja að nefna nöfn heldur fór yfir öll kosningaloforð sitjandi ríkisstjórnar, bara svona til að leggja áherslu á mál sitt.

Tíminn hefur ákveðna fordóma gagnvart fullorðnu fólki en getur verið að við sem yngri erum höfum ákveðna fordóma gagnvart tímanum og virðum ekki hans mörk? Ég óttast ekki að þessi gleymska mín sé sjúkdómur, ég veit að hún orsakast frekar af streitu, andlegri, líkamlegri og stundum tilfinningalegri. Streita hefur mikil áhrif á minni og vitræna getu og lýsir sér stundum eins og elliglöp. Oft man ég alls ekki í hvern ég ætlaði að hringja, stend þá með símann í hendinni eins og ég hafi gleymst vestur í Sauðlauksdal árið 1920 og sé nú fyrst að koma til byggða og talandi um að hringja þá hef ég oftsinnis leitaði að símanum mínum um leið og ég hef verið að tala í hann. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef ætlað inn í rangan bíl og einu sinni fór ég alla leið og var lengi að brasa við að koma lyklinum í svissinn þegar ég sá hælaskó í framsætinu sem ég kannaðist ekki við og vildi heldur ekki eiga. Þá get ég alls ekki talið ógrátandi upp þau skipti sem ég hef týnt húslyklunum mínum. Þetta er auðvitað bara fyndið en þegar maður dregur öll þessi smáatriði saman þá geta þau verið vísbending um eitthvað sem vert er að staldra við og endurskoða. Ég get víst prísað mig sæla að hafa enn hana mömmu sem passar að ég kaupi gjafir og lætur mig vita þegar ný ríkisstjórn tekur til starfa en það væri samt kannski heppilegra að virða meira mörk tímans og anda milli atriða. Og hvernig væri svo að virkja meira þessa hvíslara, heldri borgara landsins sem máta mann með minni og sinni og þrá að hafa hlutverk þó ellin sæki að?              

Published inPistlar