Lesa meiraRauða myllan er í Sjallanum "/> Skip to content

Rauða myllan er í Sjallanum

Þó undirrituð hafi bæði starfað sem barþjónn í Sjallanum og stigið þar villtan en alls ekki hylltan dans, við undirleik helstu ballhljómsveita 10.áratugarins hefði mig aldrei grunað að Sjallinn gæti hreinlega breyst í Rauðu mylluna. Sjallinn er hins vegar magnað hús og þegar hæfileikar ungra menntskælinga bætast við getur hann orðið heill ævintýraheimur, því fékk ég að kynnast síðastliðið föstudagskvöld er ég  fór að sjá uppfærslu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri á söngleiknum Rauða Myllan. Á vef MA kemur fram að leikgerðin sé í höndum nemenda sjálfra og Garúnar leikstjóra. Meira en 80 nemendur taka þátt í uppsetningunni með leik, söng, dansi, hljóðfæraslætti, leikmyndar og leikmunagerð, búningahönnun, hári og förðun. Þá eru sýningarstjóri og aðstoðarleikstjóri úr hópi nemenda sem og hljómsveitarstjóri og danshöfundur. Þá eru ótaldir tæknimenn, auglýsingahönnuðir og reddarar.

Sýningin hefst í raun við inngang Sjallans þar sem hátíðlegur þjónn tekur á móti gestum og vísar til sætis á íslensku sem gædd er seiðandi frönskum hreim. Húsið allt er orðið að Rauðu myllunni og ég dáðist að öllum smáatriðum sem hugsað hafði verið fyrir, fjölmörg smáatriði sem samanlagt skapa stemningu og hjálpa manni við að ganga beint inn í sýninguna.

Það eru ekki nema um tvö ár síðan ég stóð fyrir framan frummyndina í París og undraðist smæð hennar og hugsaði að hún væri nú meira eins og leikmynd á sviði. Ég varð því ekkert fyrir vonbrigðum með Rauðu mylluna í Sjallanum, hún var töfrandi, ekki síst þegar leikarar og dansarar voru komnir á sviðið. Mér fannst leikmyndin alveg ótrúlega vel gerð og skemmtilega unnið með rýmið og húsið í heild sinni.

Leikurinn var kraftmikill og það sem ég dáðist mest að var hversu samstilltur leikhópurinn var í ákveðnum stíl. Það voru allir að leika í sömu sýningunni og fyrir það verður að hrósa bæði leikstjóra og leikurum. Leikstíllinn var farsakenndur og  ýktur en það hæfði líka verkinu vel, ef það er ákveðið að allir séu ýktir þá kaupir maður heildarmyndina, það hefði aðeins þurft einn til að detta inn í einhvern lágstemmdan leikstíl og þá hefði hitt virkað skrýtið. Söngurinn var ótrúlega góður og aðdáunarvert hvað aðalleikurunum  tveimur þeim Fjölni og Birgittu Björk tókst vel til í hinu þekkta lagi Come what may, það er nefnilega ekki einfaldasta söngleikjalag sem skrifað hefur verið.

Leikararhópurinn var í heild sinni frábær, ég verð þó að fá að nefna sérstaklega Arnald Starra Stefánsson í hlutverki Harold Sidler, Arnaldur var ótrúlega kómískur og sterkur í þessu hlutverki, ég upplifði hann sem heilmikinn máttarstólpa á sviðinu. Fjölnir og Birgitta voru líka mjög sannfærandi og sjarmerandi í sínum hlutverkum og Magnúsi Inga Birkissyni tókst glimrandi vel að vera sjúklega gremjulegur í hlutverki hertogans. Þá má ekki gleyma Jóhönnu Þorgilsdóttur í hlutverki Gamla góða en hún kom með hlýju og húmor inn í ótrúlegustu móment sýningarinnar. Dansinn var samstilltur og flottur og svo var náttúrulega grand að bjóða upp á lifandi hljóðfæraleik. Þvílík hæfileikabúnt í einum skóla. Til hamingju LMA með frábæra sýningu og til hamingju MA með frábæra nemendur.

Hildur Eir Bolladóttir.

 

Published inPistlar