Lesa meiraAð finna styrk í vanmætti sínum "/> Skip to content

Að finna styrk í vanmætti sínum

Móðir mín hefur alla tíð haldið því fram að ég hafi fæðst fullorðin, í fyrsta lagi var ég tæpar 20 merkur við fæðingu og höfuðmálið með slíkum ósköpum að mér finnst stundum eins og mamma sé enn tæpum fjörutíu árum síðar að velta fyrir sér hvernig þetta gat gerst. Mamma hefur oft rifjað upp að mér hafi legið reiðinnar býsn á að byrja að ganga og að ég hafi gengið upp og niður stigana heima í Laufási aðeins ársgömul, án þess að halda í handriðið. Mamma er reyndar hálfur vestfirðingur og lætur sögugenin oft hlaupa með sig í gönur, þarna held ég reyndar að hún sé að smyrja allverulega á staðreyndir málsins. Engu að síður er það rétt að ég var nokkuð kotroskinn krakki, ég man nefnilega sjálf hvað ég hlakkaði til að verða fullorðin, það sem mér fannst erfiðast að upplifa sem barn var ef ég fullorðið fólk tók ekki mark á mér, þess vegna þróaði ég nokkuð snemma besserwisser aðferðarfræði sem hefur vonandi að mestu rjátlast af mér.
Foreldrar mínir voru komnir á fimmtugsaldur þegar ég leit heiminn fyrst og einhvern veginn var það nú þannig þá að fólk á fimmtugsaldri var eldra en það er í dag. Ég man t.d. ekki eftir að hafa séð foreldra mína í gallabuxum, pabbi var oftast í jakkafötum og vesti með þverslaufu og á veturna gekk hann í skóhlífum til að verja hempuskóna bleytu en hann var prestur. Mamma gekk oft í drögtum en ekki rifnum gallabuxum eins og rúmlega fertugar konur gera alveg skammlaust í dag. Þau voru líka bæði orðin hvíthærð þegar ég fór að muna svo ég var oft spurð hvort ég væri með ömmu minni og afa í bænum. Þau voru samt dásamlegir foreldrar, mér fannst alltaf svo gott hvað þau tóku mikið mark á skoðunum mínum þó ég væri barn og hvað þau gáfu sér góðan tíma til að spjalla við mig og rökræða, þau kenndu mér að rökræða, hlusta á önnur sjónarmið og safna upplýsingum áður en að því kæmi að draga ályktanir. Ég var strax mjög forvitið barn og sá eiginleiki var síður en svo kæfður, mamma sagði alltaf, haltu áfram að vera forvitin Hildur mín, maður veit ekkert öðruvísi en að spyrja. Forvitni er jú forsenda menntunar. Forvitni og virk hlustun eru reyndar eiginleikar sem ég var studd til að rækta frá upphafi og hafa fram til þessa verið mín bestu bjargráð í lífi og starfi. Það segir sig kannski sjálft að þeir eru mikilvægir í starfi prestsins, sálgætir sem ekki er forvitinn um fólk er ekki líklegur til að spyrja spurninga sem opna á það sem máli skiptir, forvitni, borin uppi af umhyggju er lykillinn að mannssálinni, virk hlustun er glugginn sem hleypir ljósinu í gegn. Allar manneskjur þurfa að finna að lífssaga þeirra skipti máli og að reynsla þeirra, góð og slæm sé ekki merkingarsnauð, að fá eyra til að segja sögu sína gefur henni strax einhvern tilgang. Já sumir ganga m.a.s. svo langt að gefa slíka sögu út á prenti. Slíkar sögur eru raunar vinsælt lesefni af því að það er manneskjunni eðlislægt að spegla sig í lífi annarra.
En maður reynist ekki bara öðrum vel með því að vera forvitinn hlustandi, maður getur líka reynst sjálfum sér vel með þá eiginleika í farteskinu og að því hef ég komist í stærstu baráttu lífs míns, hingað til. Ég hef nefnilega lifað með kvíðaröskun síðan ég var unglingur. Í raun get ég ekki alveg sett fingur á það hvenær þetta gerði fyrst vart við sig en sennilega hef ég verið yngri en mig minnir.

Í bók sem nú er í vinnslu og fjallar um þennan þátt lífs míns, lýsi ég m.a. þessari tilfinningu úr æsku:
„Dauðinn var mér nærri í bernsku, í fyrsta lagi fannst mér hár aldur foreldra minna gera dauðann að eins konar fjarskyldum frænda sem ég var lítið tengd en vissi alltaf af. Í öðru lagi var pabbi prestur og allt hans starf fór fram inn á heimilinu. Í gegnum gamla gráa skífusímann okkar bárust allar andlátsfregnir. Þá komu aðstandendur gjarnan heim til að undirbúa útför og stundum fann maður að sorgin var gengin í hús, hún lagðist eins og snjóhula yfir græna jörð. Ég var ekki gömul þegar ég kynntist fyrst þessari angistartilfinningu sem fylgir þeirri hugsun að eitthvað sé endanlegt. Þessi tilfinning er sennilega grunntónninn í allri kvíðasinfóníunni.
Angistin er tilfinning sem getur orðið þess valdandi að maður missir tökin en það vissi ég ekki fyrr en löngu síðar. Ég man að sem barni fannst mér skrýtið að líða svona jafnvel á draumbláum og heiðskírum sumardegi þar sem randaflugan suðaði við húsvegginn og spóinn vall í haga. Já þegar sólin var hæst á lofti og geislarnir umluku mig eins og hlýr faðmur ástvinar. Á þannig degi gat þessi tilfinning um hið endanlega samt stungið sér inn í hjarta mitt eins og grýlukerti sem fellur hljótt af þakrennu. „ Tilvitnun lýkur.

Ég var samt komin yfir tvítugt þegar ég leitaði mér fyrst faglegrar aðstoðar og horfðist í augu við fylgisvein minn sem á íslensku kallast árátta og þráhyggja en á ensku Obsessive compulsive disorder. Þetta er furðuleg kvíðaröskun, í huga leikmannsins ef við getum notað það orð í samhengi sjúkdóma þá snýst þetta um að kanna mörgum sinnum hvort slökkt sé á eldavélinni eða hvort skrúfað hafi verið fyrir kranann áður en heimilið var yfirgefið. Það er þó aðeins toppurinn á ísjakanum, áráttu og þráhyggju fylgir mikil þjáning, skömm og kvíði enda hugsanirnar oft vondar.
Fyrir þau sem eiga erfitt með að skilja sjálfsprottinn kvíða, kvíða sem kviknar við eigin hugsanir, þá má líkja honum við heiftarlegan þynnkumóral án áfengis. Það er eins og hjartað verði skyndilega hrímað af angist um leið og kuldinn næðir um hugann og býr til órökrétt orsakasamhengi. Í gegnum huga okkar allra fara auðvitað skrýtnar og jafnvel óviðeigandi hugsanir, hugurinn er ótrúlega sjálfstætt fyrirbrigði sem við getum ekki alltaf stjórnað, langflestir sætta sig við það, kippa sér lítið upp við einhverjar myndir sem um hugann streyma en við sem erum með OCD festumst í myndum, leggjum djúpa merkingu í þær og óttumst að þær skilgreini okkur sem manneskju. Þetta er auðvitað einfölduð mynd en ég vil heldur ekki eyða öllum tímanum í að fjalla um þennan fylgisvein minn sem tróð sér inn í líf mitt og tekur nú þegar alltof mikið af mínum tíma. Skömmin er sú tilfinning sem vekur og nærir áráttu og þráhyggju. Nema hvað að ég lifi með þessum fjára, þetta er fulli frændinn í partýinu mínu, hann er mis hávær oft er hann spakur en stundum hefur hann upp raustina og þvælir einhverja vitleysu sem fær hárin til að rísa. Ég losna sennilega aldrei við hann en ég er með ýmis bjargráð til að lifa með honum. Eitt mikilvægasta bjargráðið er sem fyrr segir eðlislæg forvitni mín og löngun til að skilja mannlegt eðli og spegla mig í reynslu annarra og hitt er að gefa þjáningunni merkingu. Þið heyrið að ég tala um merkingu en ekki tilgang, vegna þess að mér finnst varhugavert að tala um tilgang þjáningar. Það getur sannarlega stuðað þá sem eru að ganga í gegnum hremmingar, merking er hins vegar annað, merking vísar til þess að sjá hlutina í víðu samhengi, nokkuð sem gefur manni kraft til að búa til eitthvað gagnlegt úr reynslu sinni, jafnvel þótt hún sé slæm.

Á fyrstu prestskaparárum mínum ræddi ég aldrei opinberlega um þessa reynslu en hún var þarna í farteskinu og mótaði örugglega framgöngu mína í allri þjónustu, ég man samt eftir að hafa hugsað „hvað ef fólk vissi af þessu, myndi það treysta mér fyrir verkefnum, myndi það geta hugsað sér að þiggja þjónustu mína eða myndi það hugsa, „æ það er örugglega ekki gott fyrir hana að vera undir álagi, hún er nú svo veik fyrir?“ Dag einn rann upp fyrir mér ljós, dag einn uppgötvaði ég að lífi mínu væri bara alls ekki lokið þó gæti ekki starfað sem prestur og þá varð ég frjáls og þá fyrst fór ég að mínu mati að gera gagn í þessu starfi.“ Og það sem ég óttaðist mest við að ganga fram og segja hæ ég heiti Hildur og ég er með geðröskun, varð ekki til að draga úr eftirspurn þjónustunnar. Ég held að fólk sé almennt meðvitað um að náunginn sé að glíma við eitthvað og þar séu prestar engin undantekning. Þó hefur ákveðin ímynd vomað yfir þessari starfsstétt og við sem tilheyrum henni kannski verið of upptekin að því að íklæðast henni og kannski hefur það á endanum verið okkar mesta mein. Ég er t.d. svona „social“ reykingamanneskja, tendra stundum svona eins og eina Capri á hátíðarstundu, enn gerist það að fólk horfir furðulostið á mig og segir, „jahá er presturinn bara að reykja.“ Ég tek það auðvitað ekki nærri mér en athugasemdin getur hins vegar verið birtingarmynd einhvers stærri og flóknari misskilnings sem snýst um að prestar séu einhvers konar mennskumeistarar með eintóm tromp í spilastokk lífsins. Það er auðvitað mjög ógagnleg mynd því hlutverk okkar prestanna er fyrst og fremst að koma því til skila að Jesús hafi verið manneskja og þekki þess vegna öll litbrigði þess. Þannig að ef við erum ekki manneskjur þá náum við væntanlega ekki miklum árangri í því að prédika að Guð hafi gerst maður. Eða hvað? Með þessu er ég auðvitað ekki að mæla reykingum bót né segja að maður þurfi að reykja til þess að öðlast trú á Guð.
Það sem gerðist þegar ég fór að tala opið um mína kvíðaröskun var að ég fór að lifa fyrir ofan sjúkdóminn, þegar maður er einhvern veginn fyrri til að tala um erfiða hluti er eins og maður sé frekar við stjórn, nokkrum skrefum á undan boðflennunni. En það skiptir líka máli að vera búinn að kortleggja svolítið boðflennuna áður en greint er frá henni og það var kannski nákvæmlega það sem ég var búin að gera í nokkur ár áður en að ég ákvað að segja mína sögu og gefa henni merkingu og nýta hana sem tæki til að hjálpa öðrum. Það er svo mikilvægt að sjá ekki eftir því að segja frá persónulegum hlutum og þess vegna skiptir tímasetningin máli og tilgangur þess að segja frá.
Í mínu tilviki var tilgangurinn tvíþættur, annars vegar þessi að lifa fyrir ofan sjúkdóminn sem gerist með því að kortleggja hann og þekkja og hins vegar það að berjast gegn fordómum með því standa í báðar fætur og segja hér er ég í mínu ábyrgðarstarfi vel fúnkerandi starfsmaður innan kirkjunnar en ég er með geðröskun og það er vont og þjáningarfullt en líka tækifæri til að dýpka mig í starfi og mæta fólki af enn meiri skilningi. Það er auðvitað auðmýkjandi að vera með geðröskun, þetta er skrýtið, óáþreifanlegt og framandi fyrirbæri sem hefur yfir sér allskonar mýtur, staðalímyndir og fordóma. Mitt markmið með því að tala um þetta er að sýna fram á að manneskjur eru lagskiptar og að styrkleikarnir geta líka legið í vanmættinum og í því að takast á við hann.En það gerðist fyrst þegar ég uppgötvaði að það var ekki starfið sem ég óttaðist að missa, ef ég yrði svipt hempunni fyrir að vera með geðröskun þá væri hempan ekki það sem ég hefði gagn af að klæðast og þá væri hún sennilega engum til gagns, ég myndi þá bara skapa mér sjálfstæðan vettvang og halda áfram að tala opið um það sem mörgum þykir óþægilegt alveg þangað til þeim myndi fækka sem liði þannig. Það verður enginn brautryðjandi sem er hræddur um stöðu sína og sennilega skapast engin þjónandi forysta í slíkum ótta.

Í þessu samhengi sæki ég hugmyndafræði mína til atvinnurekanda míns, Jesú frá Nasaret,en ekki hvað, þið getið andað rólega ég er ekki að fara að detta í einhverja predikun hérna eða skefjalaust trúboð enda er trúboð eitthvað sem getur átt sér stað bæði meðvitað en líka ómeðvitað þannig að það er enginn óhultur. Nema hvað, það er þetta með fórnina sem mér finnst mikilvægt að skoða í tengslum við hina þjónandi forystu. Þungamiðjan í kristinni trú er krossdauði Krists og upprisa, í túlkun á þeim atburðum og merkingarleit er oftast einblínt á það markmið Jesú að taka syndir mannanna með sér upp á Golgatahæð þar sem hann þjáðist og dó vegna þeirra en fyrir okkur. Með atburðinum er Guð að segja með hástöfum „ÉG FYRIRGEF“ það er flókið að vera manneskja, það þurfa allir á fyrirgefningu að halda, við gerum öll mistök og þá er gott að vita að lífinu sé ekki lokið vegna þess að það er til Guð sem er tilbúinn að fyrirgefa öllum, Guð sem fyrirgefur fólki án þess að samþykkja gjörðir þess, enda er eitt að fyrirgefa manneskjum en annað að fyrirgefa verknað. Upprisan er staðfesting á því að þær aðstæður séu ekki til þar sem er engin von, það er alltaf einhver von, ekki endilega von um kraftaverk heldur von um áframhald og tilgang til að lifa. Staðreyndin er auðvitað sú að við vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér, ég Hildur Eir Bolladóttir gæti allt eins lent í því að verða manneskju að bana eða beita einhvers konar ofbeldi, ég er ekkert öðruvísi en annað fólk þó ég hafi mín siðferðilegu viðmið og markmið, það þekki ég úr starfi mínu að enginn hefur ákveðið dag einn að gerast vondur, það er þróun sem á sér oft óvænt upphaf. Krossdauði Krists og upprisa er líka merki um að nýtt upphaf á sér sjaldnast stað án fórnar, allir brautryðjendur hafa fært fórnir og upplifað einhvers konar þjáningu, það verður ekkert nýtt til án óþæginda og fórna. Þegar brautryðjandinn fer af stað veit hann ekki með vissu hvort fórn hans skili árangri, hann verður bara að hafa hugrekki til að trúa því.
Forvitni, fórn og virk hlustun er að mínu mati forsenda þjónandi forystu. Forvitni er undirstaða þess að skilja sjálfan sig og aðra, virk hlustun er tæki til að greina aðstæður og aðalatriði frá aukaatriðum og hugrekki eða það að stjórnast ekki af ótta er forsenda þess að koma fram með nýjar hugmyndir og brjóta niður múra. ( Erindi flutt á ráðstefnu um þjónandi forystu og brautryðjendur á Bifröst 25.sept 2015)

Published inPistlar